Laugavegur 34

Guðsteinn Eyjólfsson klæðskeri hóf sjálfstæðan rekstur við Grettisgötu árið 1918. Um 1922 keypti hann einlyft timburhús við Laugaveg 34, en í því húsi hafði meðal annars verið sölubúð.

Í mars 1929 fékk Guðsteinn leyfi til að reisa þrílyft verslunar- og íbúðarhús á lóð sinni við Laugaveg og í kjölfarið voru húsin við Laugaveg 34 rifin. Þorleifur Eyjólfsson arkítekt gerði teikningar að nýju húsi, sem þykir sérstakt og fallegt með bogadregnum kvistum og fjölda glugga með mörgum fögum. Verslunin flutti inn í húsið í desember 1929 og hefur starfað þar óslitið síðan.

Eyjólfur sá um rekstur fyrirtækisins fram til dauðadags haustið 2004 en vorið 2016 tóku nýir eigendur við rekstri verslunarinnar.

Laugavegur 34A

Laugaveg 34A reisti Hinrik Thorarensen læknir árið 1929. Götuhæðin skiptist frá upphafi í tvö verslunarpláss. Austan megin var lengi dömuverslun Matthildar Björnsdóttur. Vestan megin var löng og mjó bókaverslun BSE, þ.e. útibú frá Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar. Plássin voru síðar sameinuð í eitt.

Hinrik yngri og Millý, eiginkona hans, stofnuðu verslunina Tískuskemmuna á Laugaveginum árið 1953. Hún var í fyrstu lítil vefnaðarvöruverslun en með tímanum varð búðin ein helsta tískuvöruverslun bæjarins.

Tískuskemman var rekin í húsinu fram á níunda áratuginn. Eftir að Tískuskemman hætti störfum var innréttuð sælkerakjötverslun í húsinu og síðar var starfrækt ölkrá í húsinu.

Laugavegur 36

Hinn 3. apríl 1920 stofnuðu þeir Stefán og Guðmundur bakarí undir nafninu G. Ólafsson & Sandholt. Fáeinum árum eftir stofnun bakarísins byggðu þeir stórt og veglegt íbúðarhús, ásamt bakaríi á Laugavegi 36. Húsið er þrílyft og var brauðgerðin og bakaríið á götuhæðinni. Brauðgerðarhús þeirra var eitt hið fullkomnasta sem byggt hafði verið hérlendis.

Þegar Guðmundur Ólafsson lést árið 1949 keypti Stefán hans hlut. Ásgeir sonur hans kom inn í fyrirtækið og síðar Stefán yngri, sonur hans. Ásgeir Sandholt eldri lést árið 2003 á nítugasta aldursári, en þá voru ekki mörg ár síðan hann lét af störfum. Afkomendur Stefáns Sandholts reka Sandholtsbakarí enn með miklum myndarbrag.